01.03.2019

Bylting í íslensku golfi - Trackman Range sett upp í Básum í samstarfi við N1 hf.

Nú á dögunum hófst uppsetning á Trackman Range kerfi á æfingasvæði Golfklúbbs Reykjavíkur í Básum. Trackman Range er einstakt kerfi sem gerir notendum Bása mögulegt að sjá högglengd, höggstefnu, boltahraða og fleiri mikilvægar upplýsingar sem nýtast vel við æfingar. Þetta verkefni hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið og er það unnið í samstarfi við nýjan aðalstyrktaraðila Bása, N1 hf. Samningar við Trackman og N1 hf. voru undirritaðir í dag.

TrackMan Range - gjörbreytir allri aðstöðu til æfinga
TrackMan Range er ný og byltingakennd radar mælingartækni fyrir golfæfingasvæði sem veitir kylfingum lykilupplýsingar um hvert slegið högg og gjörbreytir allri aðstöðu til æfinga í Básum.  Þegar högg hefur verið slegið mæla radarar sem staðsettir eru á æfingasvæðinu flug boltans á sjálfvirkan hátt.  Nákvæm lengd bolta á flugi,  hraði og ferill boltans er sýndur í rauntíma á spjaldtölvu eða snjallsíma kylfings á einfaldan og skýran hátt.

Þetta nýja kerfi býður kylfingum einnig upp á ýmsa leiki sem gera æfingu að leik fyrir alla kylfinga auk þess að kynna íþróttina á skemmtilegan hátt fyrir þeim sem eru að byrja. Leikir sem TrackMan Range býður upp á eru t.d. Næstur pinna – Fangaðu flaggið og Lengsta högg, fleiri leikir eru væntanlegir á næstu mánuðum

Kerfið er í stöðugri þróun og nú í upphafi árs var ný viðbót kynnt sem gefur kost á að leika ýmsa heimsþekkta golfvelli. Grafarholtsvöllur og Korpúlfsstaðarvöllur verða meðal þeirra valla sem hægt er að leika en auk þeirra stendur val um Innisbrook Copperhead (US), Muirfield Village (US), PGA National (US), Royal Birkdale (UK), Royal Troon (UK), St. Andrews Castle Course (UK), St. Andrews Jubilee Course (UK), St. Andrews New Course (UK), St. Andrews Old Course (UK) og The Grove (UK) svo eitthvað sé nefnt.

Gert er ráð fyrir því að 1. og 2. hæð verði tengd kerfinu með samtals 48 básum.  Á 1. hæð verða 8 básar útbúnir með spjaldtölvum,  aðrir básar á 1. og 2. hæð verða með standi þar sem kylfingar geta notað sinn eigin snjallsíma eða spjaldtölvu til mælinga,  3. hæð verður ekki tengd kerfinu. Athugið að til þess að nýta tæknina þurfa kylfingar að ná í app á snjalltæki sitt. Leiðbeiningar um það verða nánar kynntar síðar.   

Auknir möguleikar á mótahaldi og viðburðum fyrir fyrirtæki og hópa
Með TrackMan Range aukast möguleikar á mótahaldi og viðburðum fyrir fyrirtæki og hópa í kerfinu og á hvaða árstíma sem er. Hægt er að stofna mót á einhverjum þeirrra heimsþekktu valla sem hægt er að leika í kerfinu og geta keppendur skráð sig til leiks þegar þeir mæta.

Golfæfingasvæði Bása hefur samhliða þessum nýjungum fjárfest í nýjum boltavélum, mottum og boltum. Auk þess mun nýtt og þróað sölukerfi vera tekið í gagnið sem kemur til með að þjónusta félagsmenn GR og aðra viðskiptavini æfingasvæðisins enn betur. 

„Básar voru bylting í íslensku golfi þegar þeir voru reistir árið 2004. Nú er stigið næsta stóra skref við bætingu á æfingaaðstöðu fyrir íslenska kylfinga með tæknivæðingu þeirra. Trackman Range er stórkostlegt kerfi, einfalt í notkun og gefur notendum Bása einstakar upplýsingar um golfleik sinn og hvað þarf að bæta,“ segir Björn Víglundsson, formaður Golfklúbbs Reykjavíkur.

„Við höfum stutt við íslenskar íþróttir í áratugi og það er sérstaklega ánægjulegt að geta tekið þátt í svona verkefni fyrir golfíþróttina. Ísland hefur nú þegar náð að ala af sér afrekskylfinga sem náð hafa eftirtektarverðum árangri alþjóðlega og þessi nýjasta viðbót mun án efa styðja unga og efnilega kylfinga enn frekar í að láta drauma sína rætast,“ segir Hinrik Örn Bjarnason , framkvæmdastjóri N1 hf.

Meðfylgjandi mynd er frá undirritun samnings, f.v Ómar Örn Friðriksson framkvæmdastjóri GR og Hinrik Örn Bjarnason framkvæmdastjóri N1 hf.

Til baka í fréttalista