29.06.2019

Formleg opnun á TrackMan Range í Básum miðvikudaginn 3. júlí

Eins og félagsmenn og aðrir kylfingar hafa tekið eftir þá hefur uppsetning á TrackMan Range staðið yfir frá því í vor á golfæfingasvæðinu Básum. Stóra stundin er um það bil að renna upp en næstkomandi miðvikudag, 3. júlí verður kerfið gangsett formlega.

Básar munu vera lokaðir á milli kl. 16:00 og 17:00 en TrackMan Range verður sett í gang kl. 17:00 með formlegum hætti þar sem allir afrekskylfingar Golfklúbbs Reykjavíkur munu slá bolta á sama tíma.

Laugardaginn 6. júlí mun sérstakur N1 dagur vera haldinn í Básum en þá verður öllum kylfingum boðið upp á fría bolta og boltakort verða seld með 20% afslætti allan daginn en N1 er helsti styrktaraðili Bása. Einnig verða í gangi leikir úr kerfinu sem gestir geta tekið þátt í og unnið til veglegra verðlauna. Þá munu starfsmenn einnig vera á svæðinu sem kenna kylfingum að nota kerfið. N1 dagur verður nánar auglýstur þegar nær dregur.

Á nýrri vefsíðu Bása er hægt að afla sér upplýsinga um þá notkunarmöguleika sem TrackMan Range hefur upp á að bjóða. Þar má finna upplýsingar um virkni kerfisins,  myndbönd sem útskýra leiki og leiðbeiningar um hvernig á að byrja að nota kerfið.
 

TrackMan Range
TrackMan Range er ný og byltingakennd radar mælingartækni fyrir golfæfingasvæði sem veitir kylfingum lykilupplýsingar um hvert slegið högg og gjörbreytir allri aðstöðu til æfinga í Básum.  Þegar högg hefur verið slegið mæla radarar sem staðsettir eru á æfingasvæðinu flug boltans á sjálfvirkan hátt.  Nákvæm lengd bolta á flugi,  hraði og ferill boltans er sýndur í rauntíma á spjaldtölvu eða snjallsíma kylfings á einfaldan og skýran hátt.

Þetta nýja kerfi býður kylfingum einnig upp á ýmsa leiki sem gera æfingu að leik fyrir alla kylfinga auk þess að kynna íþróttina á skemmtilegan hátt fyrir þeim sem eru að byrja. Leikir sem TrackMan Range býður upp á eru t.d. Næstur pinna – Fangaðu flaggið og Lengsta högg, fleiri leikir eru væntanlegir á næstu mánuðum.

Unnið er að því að setja golfherma (virtual golf) upp í kerfinu og má reikna með að það opni í haust en þegar það er komið í loftið má t.d. leika velli eins og Innisbrook Copperhead (US), Muirfield Village (US), PGA National (US), Royal Birkdale (UK), Royal Troon (UK), St. Andrews Castle Course (UK), St. Andrews Jubilee Course (UK), St. Andrews New Course (UK), St. Andrews Old Course (UK) og The Grove (UK) svo eitthvað sé nefnt. Grafarholtsvöllur og Korpúlfsstaðavöllur verða einnig meðal þeirra valla sem hermarnir munu bjóða upp á.

Básar og Golfklúbbur Reykjavíkur í samvinnu við N1

Til baka í fréttalista