Ástráður Sigurðsson býður upp á golfkennslu í Básum

Ástráður Sigurðsson býður nú uppá golfkennslu í Básum fyrir meðlimi GR og almenning. Hann hefur víðtæka reynslu af golfkennslu og hefur kennt byrjendum jafnt sem atvinnukylfingum.
Ástráður er mörgum GR-ingum kunnur, hann byrjaði að spila golf 10 ára gamall og er uppalinn í Golfklúbbi Reykjavíkur. Hann spilaði mikið fyrir klúbbinn í unglingaflokki, meðal annars með landsliði Íslands í Evrópumótinu árið 1990. Ástráður var einnig í sigursveit GR í fyrstu sveitakeppni drengja 1987.
Árin 1989-1993 kenndi Ástráður unglingum Golfklúbbs Reykjavíkur undir stjórn Sigurðar Péturssonar PGA golfkennara/Íslandsmeistara. Sigurður var menntaður frá golfkennaraskóla í Svíþjóð og ákvað Ástráður að feta í hans spor og útskrifaðist með PGA réttindi árið 1997. Ástráður er einnig með alþjóðleg réttindi sem kylfusmiður.
Ástráður kenndi við hina ýmsu klúbba hér á landi áður hann hélt utan til Svíþjóðar þar sem hann bjó í rúman áratug. Þar kenndi hann golf við einn stærsta golfklúbbinn á vesturströndinni Kungsbacka GK þar sem stjörnur á borð við Fredrik Jakobson, Johan Edfors og Sofie Gustavsson voru meðlimir.
Hægt er að bóka tíma í kennslu hjá Ástráði í síma 844-3750 eða í gegnum netfangið astradur.sigurdsson@gmail.com